Fótbolti

Meinaður að­gangur að blaða­manna­fundi Ten Hag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Blaðamannafundur Erkis ten Hag var ekki jafn fjölmennur og oft áður í dag.
Blaðamannafundur Erkis ten Hag var ekki jafn fjölmennur og oft áður í dag. Matthew Peters/Manchester United via Getty Images

Fulltrúum fjögurra fjölmiðla var meinaður aðgangur að blaðamannafundi Erik ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, sem haldinn var í dag fyrir leik liðsins gegn Chelsea sem fram fer annað kvöld.

Fjölmiðlafólk á vegum Sky Sports, ESPN, Manchester Evening News og The Mirror fengu ekki að sitja blaðamannafund þjálfarans í dag eftir að miðlarnir greindu frá meintu ósætti leikmanna liðsins við þjálfarann.

Forráðamönnum Manchester United þykir félagið ekki hafa fengið færi á því að svara þessum neikvæðu fréttum um félagið og brugðu því á það ráð að banna fulltrúum þeirra miðla einfaldlega að mæta á blaðamannafund liðsins í dag.

„Við erum að grípa til aðgerða gegn nokkrum fjölmiðlafyrirtækjum. Ekki vegna þess að þau hafa birt fréttir sem okkur líkar ekki, heldur vegna þess að þau gerðu það án þess að hafa samband við okkur fyrst til að gefa okkur tækifæri til að svara fyrir okkur eða setja hlutina í samhengi,“ sagði í yfirlýsingu Manchester United í dag.

„Við höfum trú á því að það sé mikilvægt að geta varið sig og við vonum að þetta muni verða til þess að við endurhugsum það hvernig við vinnum saman.“

Manchester United og Chelsea eigast við í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld klukkan 20:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×