Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í morgun segir að fjármálakerfið hér á landi sé traust og eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka sterk.
Fjármálaskilyrði hefðu versnað samhliða því sem hægt hefði á efnahagsumsvifum.
Á þriðja ársfjórðungi þessa árs dró skyndilega úr miklum hagvexti sem mældist þá 1,1 prósent.Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir þetta í samræmi við það sem Seðlabankinn hefði stefnt að með vaxtahækkunum sínum.

„Ef við náum því marki að geta hægt á kerfinu og náð að knýja fram mjúka lendingu, án þess að það komi eitthvað upp í fjármálakerfinu, þá er það mjög jákvætt,“ segir Ásgeir.
Greina mætti aukna aðlögun með minni fjárfestingum og neyslu sem hefði farið á flug eftir að faraldrinum lauk. Seðlabankastjóri segir mikilvægt að samfélagið allt taki þátt í að ná niður verðbólgunni. Þess vegna væri ánægjulegt að heyra þann tón sem nú bærist frá viðræðum aðila vinnumarkaðarins um nýja kjarasamninga.
„En það er náttúrlega að mörgu að hyggja ef það verða gerðr svona stórir kjarasamningar þar sem allir hópar sitja við sama borð. Þá eru svo ótal mörg mál sem þarf þá að ræða um. Ég er ekki endilega viss um að þetta verði auðveldir samningar. En mér finnst hins vegar að það sem bæði leiðtogar verkalýðsfélaganna og eins líka samtök atvinnurekenda hafa sagt vera jákvætt,“ segir seðlabankastjóri.
Í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans var gert ráð fyrir að verðbólga yrði þrálátari en í fyrri spám og að hún yrði um 5 prósent að jafnaði á næsta ári. Verði niðurstaða kjaraviðræðna góð megi hins vegar reikna með að verðbólgan minnki hraðar.
„Ef við náum sameiginlegu átaki þá vonandi getum við náð verðbólgu tiltölulega hratt niður. Þá skapað grundvöll fyrir því að við getum lækkað vexti og farið aftur að slaka á peningastefnunni. Þannig að ég bind vonir við það,“ segir Ásgeir Jónsson.