Enski boltinn

Antony barmar sér yfir „ó­sann­gjarnri“ gagn­rýni Neville og fé­laga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United keypti Antony frá Ajax fyrir 85 milljónir punda í fyrra.
Manchester United keypti Antony frá Ajax fyrir 85 milljónir punda í fyrra. getty/Robbie Jay Barratt

Brasilíumaðurinn Antony hefur sent fyrrverandi leikmönnum Manchester United tóninn fyrir það sem honum finnst vera ósanngjörn gagnrýni á hans frammistöðu inni á vellinum.

Antony hefur ekki náð sér á strik í vetur og var meðal annars tekinn út úr leikmannahópi United vegna ásakana um að hafa beitt konur ofbeldi. Antony hefur ekki skorað í fjórtán leikjum í öllum keppnum á tímabilinu en þrátt fyrir það finnst honum hann fá ósanngjarna gagnrýni frá fyrrverandi leikmönnum United eins og til dæmis Gary Neville.

„Ég sé ósanngjarna gagnrýni frá fyrrverandi leikmönnum liðsins og öðrum í fjölmiðlum og hún hefur áhrif á þúsundir stuðningsmanna og þeir gagnrýna mig meðal annars stundum þegar ég spila ekki,“ sagði Antony.

„Ég sé þá aldrei koma með uppbyggilega gagnrýni sem hjálpar mér að verða betri leikmaður. Enginn þeirra hefur sent mér skilaboð til að kanna hvernig mér líður, sérstaklega í öllu sem ég hef gengið í gegnum.“

Antony segir einfalt fyrir aðra að gagnrýna sig og segir samfélagsmiðla hina mestu meinsemd.

„Ég myndi vilja sjá hvernig þetta fólk sem kemur með ósanngjarna og illkvittna gagnrýni myndi standa sig í mínum sporum,“ sagði Antony. „Samfélagsmiðlar eru að skemma fótboltann og sannleikurinn skiptir engu máli lengur.“

Antony og félagar hans í United taka á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×