Fótbolti

Lars í­trekar með­mæli sín með Heimi sem hann treystir að fullu

Aron Guðmundsson skrifar
Lars og Heimir á góðri stundu saman.
Lars og Heimir á góðri stundu saman. mynd/vilhelm

Án þess að hika, myndi Lars Lager­back, fyrrum lands­liðs­­þjálfari Ís­lands, mæla með fyrrum sam­­starfs­manni sínum Heimi Hall­gríms­­syni í hvaða þjálfara­­starf sem er. Hann er yfir sig hrifinn af starfi Heimis með Jamaíka upp á síð­kastið.

Í hlað­varps­þætti á vegum sænska miðilsins Fot­bollskana­len, sem bar yfir­heitið krísan í sænskum fót­bolta, lét Lars Lager­back, fyrrum lands­liðs­þjálfari Ís­lands og Sví­þjóðar, hafa það eftir sér að hann myndi klár­lega mæla með því við forráðamenn sænska knatt­spyrnu­sam­bandsins að ráða Heimi Hall­gríms­son, hans fyrrum sam­starfs­mann hjá ís­lenska lands­liðinu og nú­verandi þjálfari Jamaíka, sem næsta lands­liðs­þjálfara sænska lands­liðsins.

Sænska lands­liðið hefur upp­lifað betri tíma en undan­farið. Liðinu tókst ekki að tryggja sér sæti á EM næsta árs og er nú án þjálfara. 

„Að­dragandinn að þessu felst kannski í miklum vanga­veltum hér í Sví­þjóð,“ segir Lars í samtali við Vísi aðspurður um meðmæli sín á Heimi. „Það er nýtt fólk í brúnni hjá sænska knatt­spyrnu­sam­bandinu, fólk sem ég þekki ekki per­sónu­lega í stöðu fram­kvæmda­stjóra sam­bandsins sem og for­seta­em­bættinu.“

Vanga­velturnar, varðandi það hver eigi að taka við þjálfun sænska lands­liðsins, hafi verið miklar upp á síðkastið og í við­tali sem Lars fór í á dögunum hjá Fotbollskanalen var hann beðinn um koma með nöfn á mögu­legum kandídötum í landsliðsþjálfarastarfið hjá Svíum.

„Það hafa margir verið orðaðir við starfið í fjöl­miðlum en að mínu mati verður maður að þekkja þá ein­stak­linga sem maður nefnir í um­ræðunni mjög vel. Vita hvernig ein­staklingar þeir eru og hvaða eigin­leikum þeir búa yfir á sviði fót­boltans.

Þess vegna nefndi ég Heimi sem og Per Joar Han­sen, fyrrum að­stoðar­mann minn hjá norska landsliðinu í þessum efnum. Ég tel að það muni ekki hafa ein­hver á­hrif á þjálfara­leit sænska knatt­spyrnu­sam­bandsins sem hefur ekki beðið um mitt álit á þessu.

En ég treysti þessum tveimur þjálfurum 100% þegar kemur að þeim sem ein­stak­lingum sem og færni þeirra á sviði fót­boltans. Þá búa þeir báðir yfir reynslu af því að starfa í lands­liðs­um­hverfinu, eitt­hvað sem ég tel mjög mikil­vægt.“

Það er margt í fari Heimis sem gerir Lars auð­velt að mæla með honum í hvaða þjálfara­starf sem er.

„Karakterinn þinn sem manneskja sem og þjálfari skiptir svo miklu máli í lands­liðs­þjálfarastarfinu. Og þegar að maður hefur starfað með fólki þá þekkir maður það inn og út. Þess vegna myndi ég án efa mæla með Heimi í hvaða þjálfara­starf sem er.“

„Er að gera frábæra hluti“

Og Lars hefur fylgt náið með sínum fyrrum sam­starfs­fé­laga hjá ís­lenska lands­liðinu. Heimir hefur verið að gera góða hluti með lands­lið Jamaíka sem tryggði sér sæti á Copa America á dögunum og er komið í undan­úr­slit Þjóða­deildarinnar.

„Já ég fylgist vel með úr­slitum liðsins undir hans stjórn og hef einnig verið að horft á vel flesta leiki liðsins í gegnum WyScout. Þá tölum við Heimir reglu­lega saman. Ég er virki­lega hrifinn af hans vinnu þarna. Hann er að gera frá­bæra hluti með þetta lands­lið Jamaíka.“

Heimir Hallgrímsson stýrir Reggístrákunum, karlalandsliði Jamaíku í knattspyrnu og hefur verið að gera frábæra hluti með liðið.Omar Vega/Getty Images

„Ef við horfum á úr­slit liðsins áður en að Heimir tók við þjálfun þess og tökum með í reikninginn öll vanda­málin varðandi liðs­skipan Jamaíka, leik­menn sem voru ekki reiðu­búnir að spila fyrir liðið og annað slíkt, þá sjáum við hversu sterkt hjá Heimi það er að koma þessu aftur á gott skrið. 

Ná að tryggja sér sæti í undan­úr­slitum Þjóða­deildarinnar. Hann er að vinna mjög gott starf þarna með Guð­mundi Hreiðars­syni. Virki­lega vel að verki staðið hjá þeim að mínu mati.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×