Handbolti

Þórir um HM: Ekki svindl en ekki heldur al­veg sann­gjarnt

Sindri Sverrisson skrifar
Þórir Hergeirsson hefur verið afskaplega sigursæll sem þjálfari Noregs.
Þórir Hergeirsson hefur verið afskaplega sigursæll sem þjálfari Noregs. EPA-EFE/Zsolt Czegledi

Blaðamaður Aftonbladet í Svíþjóð fullyrðir að HM kvenna í handbolta sé hagrætt í þágu gestgjafa mótsins. Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs, segir ekki um neitt svindl að ræða en tekur undir að fyrirkomulagið sé ekki alveg sanngjarnt.

Íslendingar biðu spenntir eftir drættinum fyrir HM sem fram fór í Gautaborg 6. júlí, enda Ísland meðal þátttökuþjóða á HM kvenna í fyrsta sinn í tólf ár. Ísland var þar í neðsta styrkleikaflokki en gestgjafar mótsins, lið Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar, öll í efsta styrkleikaflokki. 

Það rímar við styrkleika þessara liða en það sem gagnrýnt hefur verið er að áður en dregið var í riðla var, venju samkvæmt, búið að raða átta af bestu liðum heims í riðla. Og samkvæmt grein Aftonbladet eru það ekki bara markaðslegar forsendur, til dæmis til að fjölga áhorfendum á leikjum, sem ráða.

Í grein Johan Flinck hjá Aftonbladet kemur til að mynda fram að það hafi verið landsliðsþjálfari Svía, Tomas Axnér, sem ákvað hvaða lið úr efsta flokki yrði í B-riðli, og myndi þá fara í milliriðil með Svíþjóð. Svartfjallaland hafi orðið fyrir valinu sem viðráðanlegasti mótherjinn.

Flinck gefur einnig í skyn að það sé engin tilviljun að fari svo að Svíþjóð, Noregur og Danmörk vinni hvert sinn milliriðil þá geti þau ekki mæst í 8-liða úrslitum, og ekki heldur mætt Frakklandi.

Þórir: Gert til að auka áhuga en ekki til að svindla

Þórir var spurður út í málið af Nettavisen eftir sigur Noregs gegn Angóla í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar í gær.

Hann segir ekki um neitt svindl að ræða, eða eins og Flinck orðaði það í fyrirsögn að HM sé hagrætt með svindli (e. rigged), með því hvernig sterkustu liðin séu valin í riðla.

„Ég hef ekki trú á að þetta sé gert til að svindla á neinu. Þetta er gert til að auka áhugann fyrir skipuleggjendur mótsins og fjölmiðla,“ sagði Þórir.

Svíar virðast hafa valið sér mótherja í millriðli sem hentaði best til að greiða leiðina í 8-liða og undanúrslit.PA-EFE/ADAM IHSE

Þórir var spurður hvort þetta fyrirkomulag gæti talist sanngjarnt í íþróttum:

„Ef að þetta snerist eingöngu um íþróttalega þáttinn, sem þetta gerir sjaldnast vegna útbreiðslu íþróttarinnar, þá er þetta það ekki. Ef maður vill hafa þetta alveg sanngjarnt þá þarf þetta að vera þannig að gestgjafarnir spili sína leiki í riðla- og milliriðlakeppninni í sínu landi. Og svo þarf að draga handahófskennt, eftir styrkleikaflokkum. Þannig væri þetta sanngjarnast en ég er ekki viss um að maður yrði fyllilega ánægður með það fyrirkomulag heldur,“ sagði Þórir.

Skiptir ekki máli hverjum Noregur mætir

Er núverandi fyrirkomulag sanngjarnt fyrir alla á mótinu? „Nei, það er það ekki. Ekki eins og við skilgreinum fullkomlega heiðarlegan leik,“ sagði Þórir.

Hann vill þó ekki meina að Norðmenn hafi búið sér til sem þægilegasta leið á mótinu, eins og Svíar virðast hafa gert.

„Nú er það svo að það má raða liðum niður, og hreinlega stýra því. Við eyddum ekki mikilli orku í það en Svíarnir hafa gert grein fyrir því að þeir voru að hugsa um leiðina sína á mótinu. Það skiptir okkur ekki svo miklu máli hvaða liði við mætum,“ sagði Þórir sem er ríkjandi heims- og Evrópumeistari með Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×