Enski boltinn

Líkir Rice við Roy Keane

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Declan Rice kastar treyju sinni upp í stúku eftir dramatískan sigur Arsenal á Luton Town á þriðjudaginn.
Declan Rice kastar treyju sinni upp í stúku eftir dramatískan sigur Arsenal á Luton Town á þriðjudaginn. getty/Julian Finney

Að mati Jamies Carragher, fyrrverandi leikmanns Liverpool, hefur Arsenal-maðurinn Declan Rice verið áhrifamesti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur. Hann líkti honum jafnframt við mikla Manchester United-goðsögn.

Arsenal keypti Rice frá West Ham United fyrir rúmlega hundrað milljónir punda í sumar. Enski landsliðsmaðurinn hefur farið afar vel af stað með Arsenal og skoraði meðal annars sigurmark liðsins á elleftu stundu gegn Luton Town á þriðjudaginn.

„Declan Rice fyrir 105 milljónir punda, þvílík kjarakaup fyrir Arsenal. Mér líður eins með Rice og þegar Roy Keane fór til United 1993 fyrir metverð og Alan Shearer til Newcastle United 1996,“ skrifaði Carragher í pistli sínum fyrir The Telegraph.

„Hann hefur sennilega verið áhrifamesti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og í hvert sinn sem ég horfi á hann minnir hann mig á Keane. Hann er með sömu nærveru og sendingahæfni hans er ótrúlega vanmetin.“

Carragher sagðist jafnframt frekar vilja hafa Rice í liði sínu en spænska miðjumanninn Rodri sem hefur verið einn besti leikmaður Manchester City undanfarin ár.

Arsenal er með tveggja stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Aston Villa á Villa Park á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×