Tottenham aftur á sigurbraut eftir stór­sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tottenham lék sér að Newcastle United í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Tottenham lék sér að Newcastle United í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. EPA-EFE/TOLGA AKMEN

Tottenham Hotspur hafði leikið fimm leiki án sigurs þegar Newcastle United heimsótti þá í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Það var hins vegar ekki að sjá á frammistöðum beggja liða í dag en Tottenham vann gríðarlega sannfærandi 4-1 sigur þar sem mark gestanna kom undir lok leiks.

Eftir frábæra byrjun á leiktíðinni hefur hallað undir fæti hjá Tottenham á meðan gestirnir frá Newcastle hafa átt erfitt með að finna stöðugleika. Það var því alls óvíst í hvaða átt leikur dagsins myndi fara.

Hægt og rólega náðu heimamenn í Tottenham tökum á leiknum og á 26. mínútu gaf Son Heung-Min boltann á Destiny Udogie sem kom Spurs yfir. Tólf mínútum síðar tvöfaldaði heimaliðið forystuna. Að þessu sinni var það brasilíski framherjinn Richarlison sem skoraði eftir undirbúning Son. Staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik.

Í stað þess að Newcastle kæmist inn í leikinn voru það heimamenn sem gengu frá honum þegar klukkustund var liðin. Richarlison skoraði þá sitt annað mark eftir undirbúning Pedro Porro. Örfáum mínútum síðar hélt Brennan Johnson að hann hefði bætt við fjórða markinu þegar skot hans small í stönginni.

Undir lok leiks fengu heimamenn svo vítaspyrnu. Son fór á punktinn og skoraði af gríðarlegu öryggi. Þegar komið var fram í uppbótartíma tókst gestunum að minnka muninn. Joelinton með markið eftir sendingu frá Callum Wilson. Þar sem mörkin urðu ekki fleiri þá lauk leiknum með 4-1 sigri Tottenham.

Eftir sigur dagsins er Tottenham í 5. sæti með 30 stig að loknum 16 leikjum, sjö stigum minna en topplið Liverpool. Newcastle er í 7. sæti með 26 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira