Sport

Leyfa Rússum að keppa á Ólympíu­leikunum í París næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir hafa mótmælt því að rússneskt og hvít-rússneskt íþróttafólk fái að keppa Ólympíuleikunum í París.
Margir hafa mótmælt því að rússneskt og hvít-rússneskt íþróttafólk fái að keppa Ólympíuleikunum í París. Getty/Artur Widak

Alþjóða Ólympíunefndin ætlar að leyfa rússneskum og hvít-rússneskum íþróttamönnum að keppa á Ólympíuleikunum í París næsta sumar.

Áður hafði verið lýst yfir að hvorki rússneskt né hvít-rússneskt íþróttafólk fengi að vera með á Ólympíuleikunum vegna stríðsins í Úkraínu en nú hefur Alþjóða Ólympíunefndin breytt um skoðun.

Á leikunum í París má íþróttafólk frá þessum tveimur löndum keppa en aðeins undir hlutlausum fána.

Ellefu íþróttamenn, átta frá Rússlandi og þrír frá Hvíta-Rússlandi, hafa náð lágmörkum fyrir Ólympíuleikana 2024.

Þessir íþróttamenn mega hins vegar ekki keppa undir fána sinnar þjóðar, ekki styðja stríðið og ekki vera meðlimur í hernum eða öryggissveitum þjóðanna. Þjóðsöngvarnir verða heldur ekki spilaðir vinni þau gullverðlaun.

Það er líka aðeins einstaklingsíþróttafólk sem má keppa en engin rússnesk eða hvít-rússnesk lið fá að vera með.

Norðurlandaþjóðirnar og Úkraína mótmæltu ákvörðun Alþjóða Ólympíunefndarinnar en voru í minnihluta. Það er þó ekki búist við því að Norðurlandaþjóðirnar skrópi á leikana.

Ólympíuleikarnir fara fram frá 26. júlí til 11. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×