Fótbolti

Haf­rún Rakel í Bröndby: „Passa mjög vel inn í leik­stíl liðsins“

Sindri Sverrisson skrifar
Hafrún Rakel Halldórsdóttir er orðin leikmaður Bröndby.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir er orðin leikmaður Bröndby. VÍSIR/VILHELM

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur skrifað undir samning til tveggja ára við danska félagið Bröndby.

Hafrún Rakel, sem er 21 árs gömul, kemur frítt til Bröndby eftir að hafa spilað með Breiðabliki frá árinu 2020. Hún er uppalin hjá Aftureldingu og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með liðinu.

Í tilkynningu á heimasíðu Bröndby er bent á að Hafrún Rakel hafi meðal annars spilað tíu leiki í Meistaradeild Evrópu og leikið 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands, en fengið fyrsta tækifærið með A-landsliðinu í apríl 2021.

Hafrún Rakel var einmitt með A-landsliðinu í 1-0 sigrinum gegn Danmörku í Þjóðadeildinni fyrir viku síðan.

Hafrún kemur til móts við sína nýju liðsfélaga eftir jólafríið. Þar á meðal er Kristín Dís Árnadóttir sem einnig lék áður með Breiðabliki.

„Mér fannst ég vera tilbúin að taka næsta skref á ferlinum, og ég held að Bröndby geti hjálpað við að þroska mig enn frekar sem leikmann. Ég held að ég passi mjög vel inn í leikstíl liðsins, og þessi sókndjarfi stíll þar sem liðið heldur boltanum hentar mér mjög vel,“ sagði Hafrún Rakel við heimasíðu Bröndby.

Bröndby hafnaði í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, á eftir Köge, en er sem stendur í efsta sæti eftir 13 umferðir á yfirstandandi leiktíð, með fjögurra stiga forskot á Köge og Fortuna Hjörring.

„Ég veit að Bröndby hefur náð mjög góðum árangri í Danmörku og er alltaf að reyna að bæta sig. Ég vonast til að leggja mitt að mörkum til að vinnum deildina, og komum okkur í Meistaradeild Evrópu,“ sagði Hafrún Rakel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×