Fótbolti

Fyrir­liði Lyng­by: Held þetta sé verst dæmdi leikur sem ég hef spilað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rauða spjaldið fór á loft eftir aðeins 27 sekúndur.
Rauða spjaldið fór á loft eftir aðeins 27 sekúndur. @LyngbyBoldklub

Marcel Rømer, fyrirliði Íslendingaliðs Lyngby í knattspyrnu, var vægast sagt ósáttur eftir að liðið féll úr leik í 8-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar. Hann segir síðari leik liðsins gegn Fredericia þann verst dæmda á hans ferli en Lyngby missti mann af velli eftir 27 sekúndur.

Lyngby mátti þola 3-2 tap í fyrri leiknum gegn Fredericia og var án Gylfa Þór Sigurðsson og Kolbeins Birgis Finnssonar í þeim síðari. Þar lenti liðið manni undir eftir 27 sekúndur eftir að Andreas Bjelland var dæmdur brotlegur sem aftasti maður. 

Það nýttu gestirnir sér og komust 1-0 yfir tíu mínútum síðar, staðan í einvíginu þá 4-2. Þó lærisveinar Freys Alexanderssonar hafi gert hvað þeir gátu þá fundu þeir ekki leið í gegnum vörn gestanna og eru úr leik í bikarnum.

Rømer er engan veginn sáttur við dómara leiksins en í endursýningu sést að Bjelland nær til boltans sem fer þaðan af leikmanni Fredericia og inn fyrir vörn heimaliðsins. Þar sem Bjelland fer svo í leikmann Fredericia þá fékk hann rautt spjald fyrir að ræna upplögðu marktækifæri. 

„Ég er pirraður af því leikmennirnir á vellinum skáru ekki úr um úrslit leiksins. Í svona mikilvægum leik finnst mér að dómarinn verði að vera hundrað prósent viss. Línuvörðurinn sagðist ekki hafa séð þetta og það kemur mér á óvart,“ sagði Rømer, sem fór rakleiðis upp að aðstoðardómaranum sem var að því virtist í beinni sjónlínu.

„Á hvað er hann að horfa? Hann sinnti ekki starfinu sínu. Eftir þetta missti dómarinn algjörlega stjórn á leiknum og náði henni aldrei aftur á meðan leik stóð,“ sagði Rømer að endingu.

Lyngby er úr leik í danska bikarnum en situr í 7. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig a loknum 17 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×