Enski boltinn

Segir að Liverpool hafi verið heppið að missa af Caicedo og Lavia

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp fékk fimm rétta á félagaskiptamarkaðnum í sumar.
Jürgen Klopp fékk fimm rétta á félagaskiptamarkaðnum í sumar. getty/Richard Sellers

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósar happi yfir því að liðið hafi misst af miðjumönnunum Moses Caicedo og Romeo Lavia.

Liverpool reyndi að kaupa tvímenningana í sumar en þeir fóru þess í stað til Chelsea fyrir samtals 168 milljónir punda. Það reyndust engin kjarakaup fyrir Lundúnafélagið. Caicedo hefur ekki náð sér á strik og Lavia á enn eftir að spila leik fyrir Chelsea vegna meiðsla.

Liverpool keypti fjóra miðjumenn í sumar, Alexis Mac Allister, Dominik Szoboszlai, Ryan Gravenberch og Wataru Endo, sem hafa allir staðið fyrir sínu og gott betur.

„Ýmislegt skrítið gerðist á félagaskiptamarkaðnum í sumar en hérna, okkar á milli, get ég sagt: Guð minn góður, vorum við ekki heppnir?“ sagði Klopp þegar hann hitti um sjö þúsund stuðningsmenn Liverpool á Anfield.

„Við vissum það ekki á þeim tíma og okkur leið ekki þannig en já, ég er mjög ánægður að þetta gekk upp. En þú veist aldrei áður en lagt er af stað. Við áttuðum okkur á því að aðrir varnarsinnaðir miðjumenn vildu ekki koma til Liverpool, þú sérð hvað gerist og síðan fundum við Endo. Hann er frábær leikmaður.“

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Chelsea í 12. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×