Þetta kemur fram í nýrri greiningu deildarinnar. Því er spáð að vísitala neysluverðs hækki um 0,9 prósent milli mánaða og ársverðbólgan verði þannig 8,3 prósent.
Skýring Seðlabankans á hvað verðbólga er:
Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs. Sú vísitala mælir meðalverð á vörum og þjónustu sem heimili á Íslandi kaupa í hverjum mánuði. Verðbólga felur í sér að verðgildi og kaupmáttur peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu.
Hækkun á flugfargjöldum er það sem vegur hvað mest til hækkunar í desember. Samkvæmt spá Íslandsbanka hækka þau um 20,5 prósent en um er að ræða árstíðabundna hækkun í aðdraganda jóla. Á móti vegur að eldsneytisverð lækkar um 0,9 prósent.