Erlent

Vopnahléstillagan sam­þykkt og Ís­land kaus með

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Neyðarfundurin fór fram í dag.
Neyðarfundurin fór fram í dag. EPA

Atkvæðagreiðslu á neyðarfundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um kröfu um tafarlaust vopnahlé er nú lokið. Tillagan var samþykkt með 153 atkvæðum gegn tíu en 23 þjóðir sátu hjá. Ísland var meðal þeirra þjóða sem samþykktu tillöguna. 

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra staðfesti við fréttastofu í dag að Ísland styðji við tillöguna, sem var lögð fram af tveimur Afríkuríkjum, Egyptalandi og Máritaníu. 

Í lok október samþykkti allsherjarþingið ályktun um tafarlaust vopnahlé á svæðinu. Í þeirri atkvæðagreiðslu var Ísland eitt af 45 ríkjum sem sátu hjá en 120 ríki greiddu þar atkvæði með ályktuninni.

Hjáseta Íslands olli talsverðri ólgu en þingmaður Pírata sagði afstöðu Íslands aumingjalega. Þá sendi þingflokkur Vinstri grænna frá sér yfirlýsingu þar sem hann tjáði að Ísland hefði átt að samþykkja ályktunina. 

Atkvæðagreiðslunni lauk fyrr í kvöld. Eins og búast mátti við greiddu Bandaríkin atkvæði gegn tillögunni, auk Austurríkis, Tékklands, Gvatemala, Ísrael, Líberíu, Míkrónesíu, Naúrú, Papúa nýju Gíneu og Paragvæ. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar má sjá hér að neðan. 

Tvö Evrópulönd greiddu atkvæði gegn tillögunni, Austurríki og Tékkland. Twitter/UN

Katrín Jakobsdóttir greindi frá atkvæðagreiðslunni á Facebook síðu sinni. Þar segir hún Ísland hafa verið meðflutningsaðila tillögunnar sem að hennar sögn er nauðsynlegt að raungerist tafarlaust. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×