Fótbolti

Eyddi meira en milljarði í HM-treyjur Messi en vill ekki segja hver hann er

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar heimsmeistaratitlinum með argentínska landsliðinu fyrir ári síðan.
Lionel Messi fagnar heimsmeistaratitlinum með argentínska landsliðinu fyrir ári síðan. Getty/Chris Brunskill

Kaupandi af sex keppnistreyjum Lionel Messi frá HM í Katar fyrir ári síðan vildi ekki láta nafns síns getið.

Treyjurnar voru boðnar upp hjá Sotheby´s í New York og seldust á endanum á 7,8 milljónir dollara eða rúmlega milljarð í íslenskum krónum.

Treyjunum klæddist Messi í fyrri hálfleik í sex af leikjum argentínska liðsins á HM í Katar. Þarna eru líka treyjur úr öllum leikjum liðsins í útsláttarkeppninni.

Messi vann þarna sinn fyrsta heimsmeistaratitil og var í lok mótsins kosinn besti leikmaðurinn. Hann kórónaði þarna frábæran feril sinn og komst í huga marga í efsta sætið á listanum yfir bestu knattspyrnumenn sögunnar.

Vonir seljanda voru að setja nýtt heimsmet en gamla metið stendur enn óhaggað.

Metið er frá því þegar treyja Michael Jordan, frá leik eitt í lokaúrslitum NBA deildarinnar 1998, seldist á 10,1 milljón Bandaríkjadala í september 2022 en það eru tæpir 1,4 milljarðar.

Treyja Maradona, sem hann klæddist þegar hann skoraði með hendi guðs á móti Englandi á HM 1986, seldist á 9,28 milljónir í maí 2022 en sú treyja átti metið ekki nema í nokkra mánuði.

Þetta er samt nýtt met yfir minnisverða hluti frá ferli Messi og það mesta sem hefur verið greitt fyrir fótboltamuni á árinu 2023.

Ef Instagram færslurnar birtast ekki er gott ráð að endurhlaða fréttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×