Enski boltinn

Mikel Arteta sak­laus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta sleppur við bann.
Mikel Arteta sleppur við bann. Getty/Ryan Pierse

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, sleppur við refsingu eftir að hafa gagnrýnt myndbandsdómara harðlega eftir 1-0 tap Arsenal á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.

Sigurmark Newcastle var mjög umdeilt en Varsjáin skoraði þrjár mismunandi ástæður til að dæma markið af en fann ekki næga sönnun í neinum þeirra. Boltinn fór mögulega út af vellinum, það var möguleg rangstæða og möguleg bakhrinding.

Arteta kallaði ákvörðunina vandræðalega og sagði hana vera til skammar. Enska sambandið kærði hann fyrir ummælin og nú hefur málið verið tekið fyrir.

Sjálfstæð nefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa heyrt sjónarmið málsaðila, að ummælin séu ekki refsiverð vegna þess að ekki hafi fundist sönnun fyrir ummæli spænska stjórans hafi verið ósæmileg.

Vörn Arteta var meðal annars sú að taka fyrir orðið "disgrace" og þýðingu þess á spænsku. Desgracia á spænsku þýðir ólán, ógæfa eða óheppni en þýðing þess á ensku er aftur á móti skömm, lítilsvirðing og óvirðing.

Arteta hélt því líka fram að ummæli hans hafi komið til vegna ástríðu sinnar fyrir því að auka gæðin á myndbandsdómgæslu fremur en að vera bein ádeila á dóminn í leik Arsenal.

Þessi vörn Arteta gekk upp því hann fær hvorki sekt né leikbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×