Marka­laust í stór­velda­slagnum á Anfi­eld

Smári Jökull Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold komst afar nálægt því að skora þegar skot hans strauk stöngina á marki Untied.
Trent Alexander-Arnold komst afar nálægt því að skora þegar skot hans strauk stöngina á marki Untied. Vísir/Getty

Liverpool og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liverpool var betri aðilinn en bæði lið fengu færi til að skora.

Liverpool var mun betri aðilinn í fyrri hálfleiknum. Darwin Nunez fékk ágætt skallafæri snemma leiks en ákvað að skalla boltann fyrir markið í staðinn fyrir að reyna á Andre Onana í markinu.

Þá fékk Virgil Van Dijk fínt skallafæri eftir hornspyrnu en Onana náði að slá boltann yfir. United var lítið með boltann og enn minna í kringum teig andstæðingana. Þeir snertu boltann einu sinni í teig Liverpool í fyrri hálfleiknum sem segir ýmislegt.

Liverpool ógnaði helst eftir föst leikatriði en gekk illa að skapa opin færi

Leikurinn opnaðist síðan aðeins í síðari hálfleiknum. Liverpool stjórnaði leiknum en United fékk skyndisóknir og voru oft á tíðum ansi skeinuhættir. Rasmus Höjlund fékk gott færi þegar hann komst einn gegn Alisson í marki Liverpool en Brasilíumaðurinn bjargaði vel.

United ógnaði í fleiri skipti en Liverpool skapaði hættu sömuleiðis og Darwin Nunez og Luis Diaz komust meðal annars í hættulegar stöður. Þá átti Trent Alexander-Arnold skot sem strauk stöngina á marki United.

Luis Diaz fellur í teignum eftir baráttu við Sofian Amrabat.Vísir/Getty

Liverpool hélt áfram að pressa undir lokin og Untied féll aftar. Liverpool vildi fá vítaspyrnu þegar Luke Shaw fékk boltann í höndina í teignum. Atvikið var skoðað í VAR en ekkert dæmt.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma fékk Diego Dalot tvö gul spjöld með um það bil 15 sekúndna millibili. Hann mótmælti því að fá ekki innkast og fékk gult spjald. Hann virðist hins vegar hafa sagt eitthvað meira og Anthony Taylor gaf honum annað gult strax í kjölfarið.

Að endingu fór það svo að tíminn rann út fyrir liðin að skora sigurmarkið. Lokatölur 0-0 og heimamenn í Liverpool eflaust svekktari aðilinn. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira