Fyrsti leikur kvöldsins var leikur Englendingsins Jamie Hughes og David Cameron frá Kanada. Hughes hafði betur í fjórum settum og vann 3-1. Þetta er fyrsti sigur Hughes í Alexandra Palace og hann mætir Pólverjanum Krzysztof Ratajski í næstu umferð.

Næst mættust þeir Keane Barry og Reynaldo Rivera frá Filipseyjum. Rivera virtist gera í því að hægja á leiknum og tók sér góðan tíma í öll köst. Barry var þó sterkari en hann hafði tapað síðustu sex viðureignum sínum fyrir mótið.
Barry vann 3-1 sigur að lokum og mætir Michael Van Gerwen í næstu umferð.

Scott Williams frá Englandi mætti Japananum Haruki Muramatsu í þriðja leik kvöldsins. Williams byrjaði vel og setti snemma tvær pílur í reitinn fyrir þreföld tuttugu stig og ætlaði sér að klára 180 stig með nokkurs konar „no look“ kasti. Það klikkaði en Williams kláraði þess í stað þegar hann átti 120 stig eftir.
Hann vann fyrstu tvö settin en Muramatsu vann þriðja settið 3-0 og minnkaði muninn í 2-1. Fjórða settið var spennandi en það vann Williams 3-1 eftir að hafa klárað leikinn með kasti beint í miðjuna á spjaldinu. Lokatölur 3-1 og Williams kominn áfram.

Lokaviðureign kvöldsins var leikur Skotans Gary Anderson og hins skrautlega Simon Whitlock frá Ástralíu. Anderson er tvöfaldur heimsmeistari frá árunum 2015 og 2016 og eitt af stóru nöfnunum í Alexandra Palace.
Anderson vann fyrsta settið örugglega og byrjaði á að setja fyrstu fimm pílurnar í reitinn sem gefur hæsta mögulega skor sem er 60 stig. Anderson komst síðan í 2-0 í öðru settinu. Whitlock var ekki að spila vel en minnkaði muninn í 2-1 en Anderson vann fjórða leikinn og var þar með kominn í 2-0 í leiknum.
Whitlock lék betur í þriðja settinu og var að sækja mun fleiri stig en í fyrri tveimur settunum. Það dugði þó ekki til því Anderson vann settið 3-2 og leikinn þar með 3-0.