Frá þessu greinir Morgunblaðið og hefur eftir ónafngreindum heimildum. Blaðið segir Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra hins vegar ekki hafa viljað staðfesta fregnirnar.
„Þessum aðilum skal vera ljóst að það er enginn sérstakur skilningur meðal þjóðarinnar á því að það sé skynsamlegt að vera í verkfalli rétt fyrir jól í kjölfarið á náttúruhamförum sem hafa kostað samfélagið umtalsvert. Fólk hlýtur að átta sig á því að það ber ábyrgð,“ hefur Morgunblaðið eftir Sigurði Inga.
„Ég held að samfélagið standi ekki saman um þetta verkfall og þess vegna augljóst að þessir aðilar eiga að setjast niður og semja. Þetta er síðasti samningurinn í lotu sem hófst fyrir meira en ári og allir hafa hingað til samið um kjör innan ákveðins bils og það hlýtur að vera það sem menn ættu að vera að tala um,“ segir ráðherra.
Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að víðtækur stuðningur sé við frumvarpið meðal þingmanna.