Enski boltinn

Klopp ó­sáttur við stemninguna á Anfield: „Gefðu miðann ef þú ert ekki í lagi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp fannst ekki nógu góð stemmning á Anfield í gær.
Jürgen Klopp fannst ekki nógu góð stemmning á Anfield í gær. getty/James Gill

Þrátt fyrir 5-1 sigur á West Ham United í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í gær var Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ekki alls kostar sáttur eftir leikinn. Honum fannst stemningin á Anfield nefnilega ekki nógu góð.

Liverpool átti ekki í miklum vandræðum með að leggja West Ham að velli í gær. Curtis Jones skoraði tvö mörk og þeir Dominik Szoboszlai, Cody Gakpo og Mohamed Salah eitt mark hver.

Klopp var ánægður með frammistöðu sinna manna gegn West Ham en var ekki jafn sáttur með frammistöðu áhorfenda á Anfield.

„Í fyrri hálfleik, þegar strákarnir spiluðu framúrskarandi vel, var ég ekki allt of ánægður með stemninguna fyrir aftan mig,“ sagði Klopp.

„Ég spurði fólk: Hvað viljiði? Við breyttum mörgu, vorum með yfirburði en klúðruðum færum. Ef ég hefði verið í stúkunni hefði ég verið á tánum, þúsund prósent. Ég veit ekki hvort leikurinn gegn Manchester United var svo slæmur að við þurfum að biðjast afsökunar á að hafa ekki rústað þeim?“

Á laugardaginn fær Liverpool lið Arsenal í heimsókn í toppslag í ensku úrvalsdeildinni. Klopp vonast eftir betri stemningu á Anfield þá.

„Við þurfum Anfield á laugardaginn. Allir sem vita eitthvað um þá vita að þeir verða undirbúnir svo við þurfum Anfield til að vera á tánum frá fyrstu sekúndu,“ sagði Klopp.

„Ef þetta er of mikill fótbolti í desember, ef þú ert ekki í góðu standi gefðu einhverjum öðrum miðann þinn.“

Liverpool dróst gegn Fulham í undanúrslitum deildabikarsins. Í hinni viðureigninni mætast Chelsea og Middlesbrough.

Liverpool er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, einu stigi á eftir toppliði Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×