Enski boltinn

Þrengir að Manchester United í janúar­glugganum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes er í flokki fárra góðra kaupa Manchester United á síðustu misserum.
Bruno Fernandes er í flokki fárra góðra kaupa Manchester United á síðustu misserum. Getty/Clive Brunskill

Manchester United hefur ekki mikla möguleika að fjárfesta í nýjum leikmönnum í janúar og ástæður þess eru fjármagnsreglur ensku úrvalsdeildarinnar.

United varar stuðningsmenn sína við því að búast ekki við stórkaupum þótt mörgum þeirra finnist þörf vera á slíku.

United hefur eytt stórum fjárhæðum í leikmenn undanfarin ár en flest þeirra kaupa hafa ekki gengið upp. Það breytir ekki því að peningaeyðslan þrengir nú að félaginu.

Everton missti tíu stig í nóvember vegna brota á fjármagnsreglum og United fékk 257 þúsund punda sekt í júlí fyrir minniháttar brot á rekstrarreglum UEFA.

Collette Roche, yfirrekstrarstjóri Manchester United, sagði á umræðusíðu stuðningsmanna United að félagið þyrfti að sýna mikinn aga þegar kemur að því að eyða peningum í nýja leikmenn í framtíðinni. Hún var ekkert að fela stöðuna fyrir stuðningsmönnum.

„Við búumst ekki við því að gera mikið á markaðnum í janúar. Það er alltaf möguleiki á einhverjum breytingum á leikmannahópnum og ekki síst þegar kemur að því að finna tækifæri fyrir leikmenn sem eru ekki að spila eins mikið og þeir vilja,“ sagði Collette Roche en ESPN segir frá.

„Við höfum alltaf talað um að við horfum ekki mikið á janúarmánuð sem ákjósanlegan tíma til að kaupa inn leikmenn og við einbeitum okkur frekar að sumarglugganum,“ sagði Roche.

United hefur þegar samþykkt að lána hollenska miðjumanninn Donny van de Beek til þýska félagsins Eintracht Frankfurt og það er líka líklegt að Jadon Sancho fari frá United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×