Amel Majri kom Lyon yfir strax á sjöttu mínútu áður en Ada Hegerberg tvöfaldaði forystu liðsins sjö mínútum síðar með marki úr vítaspyrnu.
Heimakonur lögðu þó ekki árar í bát. Justine Kielland minnkaði muninn á 34. mínútu og staðan var því 1-2 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Gestirnir komu sér svo í vandræði þegar Lindsey Horan nældi sér í beint rautt spjald snemma í síðari hálfleik og liðsmenn Lyon þurftu því að spila manni færri seinustu 40 mínútur leiksins.
Natasha kom inn af bekknum fyrir Brann þegar rúmur hálftími var til leiksloka, en Brann náði ekki að nýta sér liðsmuninn fyrr en á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar Signe Gaupset kom boltanum í netið og niðurstaðan varð 2-2 jafntefli.
Lyon trónir þó enn á toppi B-riðils, nú með tíu stig eftir fjóra leiki, þremur stigum meira en Brann sem situr í öðru sæti.