Enski boltinn

Arnór festir rætur hjá Blackburn Rovers

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnór Sigurðsson hefur skrifað undir varanlegan samning við enska Championship liðið Blackburn Rovers til júní 2025.
Arnór Sigurðsson hefur skrifað undir varanlegan samning við enska Championship liðið Blackburn Rovers til júní 2025. Nick Potts/PA Images via Getty Images

Arnór Sigurðsson hefur gengið frá félagsskiptum sínum úr rússneska liðinu CSKA Moskva til Blackburn Rovers. Hann gekk til liðs við enska félagið á láni fyrr í sumar en skrifaði í dag undir varanlegan samning til 2025.

Arnór var á mála hjá rússneska félaginu síðan 2018 en samningur hans var leystur upp tímabundið í kjölfar stríðsins sem hófst milli Rússlands og Úkraínu á síðasta ári. Hann fór þá til Venezia á Ítalíu og þaðan til Blackburn Rovers. 

Löngu var orðið ljóst að Arnór myndi ekki snúa aftur til Rússlands, samningur hans átti að renna út næsta sumar, á sama tíma og lánssamningur hans við Blackburn hefði endað. 

Blackburn Rovers tilkynnti svo varanlegan samning Arnórs á samfélagsmiðlum í dag. 

Arnór hefur spilað vel með Blackburn Rovers á tímabilinu og vakið mikla lukku hjá stuðningsmönnum félagsins. Hann skoraði fyrsta markið fyrir félagið eftir aðeins tíu mínútna leik í frumraun sinni og hefur alls skorað fimm mörk í sextán leikjum fyrir félagið í öllum keppnum. 

Hann verður í eldlínunni þegar Blackburn mætir mætir Watford á morgun, laugardag klukkan 15:00. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×