Erlent

New York Times stefnir OpenAI og Microsoft

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Stjórnendur blaðsins telja að OpenAI og Microsoft hafi nýtt sér efni þess í samkeppni við fyrirtækið.
Stjórnendur blaðsins telja að OpenAI og Microsoft hafi nýtt sér efni þess í samkeppni við fyrirtækið. AP Photo/Mark Lennihan

Stjórnendur bandaríska dagblaðsins New York Times hafa höfðað mál gegn fyrirtækjunum OpenAI og Microsoft fyrir meintan þjófnað á höfundarréttarvörðu efni blaðsins.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að fjölmiðlafyrirtækið sé það fyrsta sem stefnir fyrirtækjunum tveimur fyrir notkun á efni við þróun ChatGPT gervigreindarinnar. Áður hefur hópur rithöfunda höfðað mál gegn fyrirtækjunum af svipuðu meiði.

New York Times bendir á að milljónir greina úr smiðju fyrirtækisins hafi verið nýttar til þess að þjálfa gervigreindina. Hún keppi nú við dagblaðið sem upplýsingaveita.

Ekki kemur fram í stefnu blaðsins hve mikla fjárhæð stjórnendur þess munu koma til með að krefjast af fyrirtækjunum. Segir hinsvegar í stefnuninni að skaðinn nemi milljörðum bandaríkjadala.

Fram kemur í frétt miðilsins að stjórnendur New York Times hafi komið að máli við stjórnendur Microsoft og OpenAI vegna málsins í apríl. Þar hafi þeir lýst yfir áhyggjum af notkun fyrirtækjanna á höfundarréttarvörðu efni þeirra og óskað eftir sátt vegna málsins. 

Meðal þess sem hafi verið rætt hafi verið mögulegur auglýsingasamningur og reglur um notkun gervigreindarinnar á efni blaðsins. Engir samningar hafi hinsvegar náðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×