Körfubolti

Góður biti í hunds­kjaft

Siggeir Ævarsson skrifar
Aaron Gordon mun ekki taka þátt í næstu leikjum Denver Nuggets
Aaron Gordon mun ekki taka þátt í næstu leikjum Denver Nuggets Vísir/Getty

Aaron Gordon, leikmaður Denver Nuggets í NBA-deildinni, mun ekki taka þátt í næstu leikjum liðsins vegna sérkennilegra meiðsla sem hann hlaut eftir leik liðsins á jóladagskvöld.

Ekki liggur algjörlega ljóst fyrir hvernig meiðslin komu til en Gordon ku hafa verið bitinn af hundi, bæði í andlitið og á hægri hendi. Alls þurfti að sauma 21 spor til að gera að sárum hans.

Michael Malone, þjálfari liðsins, segir að Gordon fái allan þann tíma sem hann þarf til að jafna sig af meiðslunum og segir að þessi staða sé leikmanninum mikið áfall sem hann þurfi tíma til að vinna úr.

Gordon, sem er byrjunarliðsmaður hjá meisturunum hefur skorað tæp 14 stig að meðaltali í leik og tekið sjö fráköst. Reiknað er með að þeir Peyton Watson, Zeke Nnaji og DeAndre Jordan muni fá aukinn spilatíma í fjarveru Gordon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×