Enski boltinn

Ratcliffe má aldrei gagn­rýna Glazer-fjölskylduna

Sindri Sverrisson skrifar
Laxveiðimaðurinn Jim Ratcliffe er að eignast fjórðungshlut í Manchester United og mun sjá um fótboltalegan rekstur félagsins.
Laxveiðimaðurinn Jim Ratcliffe er að eignast fjórðungshlut í Manchester United og mun sjá um fótboltalegan rekstur félagsins. Getty/Peter Byrne

Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe verður að gæta þess að gagnrýna aldrei opinberlega þá Avram og Joe Glazer, eftir að hafa eignast 25% hlut í enska knattspyrnufélaginu Manchester United.

Tilkynnt var um kaup Ratcliffe á aðfangadag. Glazer-fjölskyldan á áfram meirihluta í félaginu en Ratcliffe mun sjá um fótboltarekstur félagsins, og þar með til dæmis hafa umsjón með kaupum og sölum á leikmönnum.

Óhætt er að segja að hin bandaríska Glazer-fjölskylda hafi verið óvinsæl hjá stuðningsmönnum United í gegnum tíðina, eða frá því að hún eignaðist félagið árið 2005.

Glazer-fjölskyldan verður hins vegar ekki gagnrýnd af Ratcliffe því samkvæmt frétt The Times er ein af klásúlum kaupsamningsins sú að hann megi það ekki. Að sama skapi má Glazer-fjölskyldan ekki gagnrýna Ratcliffe opinberlega. Þetta kemur fram í skjali sem skilað var inn til kauphallarinnar í New York vegna sölunnar.

Í skjalinu er einnig staðfest að tveir fulltrúar úr fyrirtæki Ratcliffe, INEOS, taki sæti í stjórn United en það eru þeir Sir Dave Brailsford og Jean-Claude Blanc.

Verðið á 25% hlutnum sem Ratcliffe eignaðist er 1.250 milljónir punda, eða jafnvirði um 217 milljarða íslenskra króna.

Búist er við að kaupin verði samþykkt af ensku úrvalsdeildinni áður en langt um líður en þó að það sé ekki frágengið munu allar aðgerðir United á félagaskiptamarkaðnum núna í janúar þurfa að njóta samþykkis INEOS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×