VAR í sviðs­ljósinu þegar Arsenal mis­­steig sig gegn Hömrunum

Konstantinos Mavropanos sést hér skora annað mark West Ham gegn Arsenal í kvöld.
Konstantinos Mavropanos sést hér skora annað mark West Ham gegn Arsenal í kvöld. Vísir/Getty

West Ham vann óvæntan útisigur á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Arsenal mistókst því að ná toppsætinu í nýjan leik af Liverpool.

Það var mikið undir í Lundúnaslagnum í kvöld. Liverpool náði toppsætinu í fyrrakvöld með sigri á Burnley en Arsenal hafði möguleika á því að ná því á nýjan leik með sigri á West Ham sem var í 8. sæti fyrir leikinn.

Það blés ekki byrlega fyrir Arsenal í upphafi. Á 13. mínútu elti Jarrod Bowen bolta niður að endalínu og sendi fyrir markið þar sem Tomas Soucek kom boltanum í netið. Myndbandsdómari skoðaði markið þar sem vafi lék á hvort boltinn hefði farið yfir endalínuna áður en Bowen náði honum. Markið stóð hins vegar en erfitt var að sjá á myndunum hvort boltinn var kominn útaf.

Staðan í hálfleik var 1-0 en snemma í síðari hálfleik kom Kostas Mavropanos West Ham í 2-0 með skallamarki. Mavropanos lék áður með Arsenal en hefur fengið tækifæri hjá David Moyes á tímabilinu.

Lið Arsenal reyndi hvað það gat til að koma sér inn í leikinn. Bukayo Saka átti stangarskot, Gabriel Jesus gott færi og Saka vildi síðan fá vítaspyrnu á 82. mínútu. Hann féll þá í teignum eftir návígi við Angelo Ogbonna. Vissulega var snerting en ekki nægileg til að Michael Oliver eða myndbandsdómarar dæmdu víti.

Á lokasekúndum leiksins fékk West Ham síðan vítaspyrnu. Declan Rice felldi þá Emerson og lítið fyrir Oliver að gera annað en að dæma víti. David Raya varði hins vegar spyrnu Said Benrahama og lokatölur því 2-0 fyrir gestina.

Arsenal missir því af tækifærinu að ná toppsætinu af Liverpool en situr í 2. sæti tveimur stigum á eftir toppliðinu. West Ham fer upp í 6. sætið eftir sigurinn og uppfyrir Manchester United.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira