Erlent

Minnst þrjá­tíu látnir í um­fangs­mestu loft­á­rásum Rússa til þessa

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Verslunarmiðstöð í Dnípróborg varð fyrir rússneskri eldflaug í morgun.
Verslunarmiðstöð í Dnípróborg varð fyrir rússneskri eldflaug í morgun. AP

Minnst þrjátíu manns létu lífið í umfangsmestu loftárásum Rússa í Úkraínu til þessa. Einnig særðust meira en 160 þegar sprengjum ringdi yfir Kænugarð, Ódessu, Dnípropetrovsk, Karkív og Lvív í morgun.

Forseti Úkraínu, Vólódímír Selenskí, segir að Rússar hafi notað öll vopn sem þeir byggju yfir þegar þeir vörpuðu sprengjum meðal annars á fæðingardeild. Talsmenn flughers Úkraínu segja að þeir hafi aldrei séð svo mörgum eldflaugum skotið í einu. BBC greinir frá.

Sprengjubyrgi hæft

Þeir segja að Rússar hafi beitt hljóðfráum skotflaugum og stýriflaugum, meðal annars af gerðinni X-22 sem erfitt er að skjóta niður. Flugherinn segir 114 af 158 flaugum og drónum hafa verið skotna niður.

Unnið að því að slökkva eld í mannvirki í Karkív.AP/Jevhen Títov

Níu manns létu lífið í Kænugarði þar sem neðanjarðarlestarstöð sem notuð var sem sprengjubyrgi varð fyrir eldflaug. Tíu íranskir drónar og fimmtán eldflaugar sprungu í Lvív sem hefur til þessa sloppið hvað best úr loftárásum Rússa í landinu.

Fæðingardeild varð fyrir eldflaug

Í Ódessuborg kviknaði eldur í stórri byggingu í kjölfar drónaárásar. Fjórir létust og tuttugu og tveir særðust, þar á meðal sex og átta ára gömul börn. Í Karkív sprungu 20 eldflaugar og þrír létust. Sjúkrahús varð meðal annars fyrir miklum skaða.

Héraðsstjóri Dnípropetrovsk, Serhíj Lísak, segir að sex hafi látist og 28 særst í morgun. Eldflaugar hæfðu verslunarmiðstöð og fæðingardeild sjúkrahús í Dnípróborg. Í Sapórísjíu létu átta manns lífið í sprengiárásum og þrettán til viðbótar særðust.

Mikið mannfall varð um allt landið. Myndin er úr Kænugarði.AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×