Enski boltinn

United að fram­­lengja við Lind­elöf

Smári Jökull Jónsson skrifar
Victor Lindelöf hefur spilað með Manchester United síðan árið 2017.
Victor Lindelöf hefur spilað með Manchester United síðan árið 2017. Vísir/Getty

Samningur Victor Lindelöf hjá Manchester United er að renna út í sumar en félagið hefur nú ákveðið að framlengja samningi hans.

Lindelöf hefur leikið með United síðan árið 2017 en þar sem samningur hans rennur út næsta sumar er honum frjálst að ræða við önnur félög frá 1. janúar næstkomandi.

Daily Mail greindi hins vegar frá því í gær að United ætli að nýta sér klásúlu í samningi Svíans sem gerir félaginu kleift að framlengja samningnum um eitt ár. Lindelöf yrði því samningsbundinn United fram á sumarið 2025.

„Ég er með klásúlu um aukaár í samningnum og það þarf að virkja hana fyrir ákveðna dagsetningu. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær. Mér finnst mjög líklegt að hún verði virkjuð,“ sagði Lindelöf í samtali við sænska miðilinn Fotbollskanalen í október.

„Mér líður mjög vel hérna. Ég er að hefja mitt sjöunda ár með félaginu og fjölskyldunni líður vel. Þetta er félag sem mér þykir mjög vænt um og sem ég elska að spila fyrir.“

Daily Mail greinir einnig frá því að United ætli sér að virkja samskonar klásúlur í samningum Aaron Wan-Bissaka og Hannibal Mejbri en síðan á eftir að koma í ljós hvort einhverjir þessara leikmanna fái langtímasamning í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×