Erlendir miðlar velta fyrir sér trendum og horfum og það sem er hvað mest áberandi þegar kemur að árinu 2024 er gervigreindin AI: Sem virðist bæði hræða fólk og laða að.
BBC Worklife er til dæmis tíðrætt um AI. Ekki aðeins með umfjöllunum um hvaða störf gervigreindin er líkleg til að leysa úr hólmi, heldur er sérstakur gervigreindar-kvíði orðinn að veruleika hjá fólki: Já, þar sem óttinn við að missa vinnuna sína eða lífsviðurværi vegna tækniþróunarinnar er farinn að hrjá fólk.
Þá virðast flestir gera ráð fyrir að fólk munu áfram segja upp og færa sig á milli starfa eða starfsgreina í mun meira mæli en atvinnulífið hefur nokkur tíma upplifað áður. Þessi þróun varð mjög sýnileg í kjölfar Covid og virðist ekki vera að dvína þegar á heildina er litið. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar Pwc sýna að 26% fólks á vinnumarkaði stefnir á að skipta um vinnu árið 2024. Rannsóknin var alþjóðleg.
Viðhorf til menntunar er að breytast og ekki þarf nema einfalt gúggl til að sjá að mjög víða um heim eru áhyggjur af því hvernig ungt fólk er síður að velja háskólanám nú en áður, meðal annars vegna fyrirséðra breytinga með tilkomu gervigreindar. Atvinnulífið hefur meðal annars fjallað um hvernig ungt fólk virðist vera að velja sér nám með allt öðru hugarfari en áður.
Kynslóðaskipti eru fyrirséð mjög víða en í fyrsta sinn í sögunni eru fjórar kynslóðir starfandi saman á vinnumarkaði. Þetta þýðir meira en aðeins breyting á samsetningum starfshópa, því rannsóknir sýna að ungt fólk er ekki að staldra við jafn lengi og eldri kynslóðir á sömu vinnustöðum. Hraðari starfsmannavelta er því fyrirséð til langs tíma.
Loftlagsmálin og sjálfbærni eru kannski það trend helst sem fyrirséð er að atvinnulífið þarf beinlínis að takast á við árið 2024 óháð því hvort vilji sé fyrir því eða ekki; regluverk er einfaldlega að breytast víða og mikil nýsköpun þessum málum tengdum að líta dagsins ljós. Atvinnulífið á Vísi mun áfram leggja áherslu á þessi mál með reglubundinni umfjöllun.
Fjarvinna er síðan komin til að vera og telst varla mjög fréttnæm í dag. Skiptar skoðanir virðast þó á því hvaða fyrirkomulag er best eða vinsælast. Greinahöfundur Forbes spáir því til dæmis að blandað fyrirkomulag sé það sem muni vaxa hvað hraðast áfram.
Streita og líkur á kulnun halda áfram að mælast mjög hátt víðast hvar. Samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar mælingar Gallup á þetta ekkert síst við fólk í stjórnendastörfum. Í sömu rannsókn sýna niðurstöður að fyrirtæki þurfa áþreifanlega að setja sér langtímamarkmið um hvernig fjarvinnufyrirkomulagi verði háttað innan vinnustaðarins.
Allt það mannlega er síðan vaxandi hluti atvinnulífs. Hvernig fólki líður, hvaða gildi skipta fólk mestu máli, hvers konar líf fólk kýs að lifa og svo framvegis. Þetta þýðir að þótt umfjöllun um kjarasamninga verði væntanlega áberandi í almennum fréttum komandi mánuða, eru það á endanum ekki launin sem gera útslagið um það hvernig fyrirtækjum gengur að halda í gott starfsfólk.
Hér má sjá grein um draumastarfið í boði gervigreindarinnar AI sem birt var í Atvinnulífinu fyrir jólin.