Samkaup heldur utan um tuttugu verslanir Nettó, Krambúðir víða um land, Kjörbúðirnar sömuleiðis og fjórar verslanir Iceland á höfuðborgarsvæðinu. Alls eru smásöluverslanir Samkaupa um sextíu talsins.
Fjallað var um kaupin á vef Innherja í gær þar sem útskýrt var að Skel væri að styrkja stöðu sína í Samkaupum í aðdraganda skráningar á markað.
Með kaupum Skeljar eykst hlutdeild félagsins í Samkaupum. Jón Ásgeir Jóhannesson, lengi kenndur við Bónus og Baug, er stjórnarformaður Skeljar og einn af stærri eigendum þess.
Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Heimkaupa sem er í eigu Skeljar í gegnum Orkuna, tjáði Innherja í nóvember að unnið væri hörðum höndum að því að opna nýjar matvöruverslanir. Annars vegar undir merkjum Heimkaupa og hins vegar lágvöruverðsverslanir. Unnið væri að því að finna hentugar staðsetningar.
Í tilkynningu á vef KEA segir að KEA hafi átt hlut sinn í Samkaupum í um tíu ár.
„KEA fékk tilboð í hlut sinn frá SKEL fjárfestingafélagi sem það taldi sig ekki getað hafnað. KEA er að einfalda eignasafn sitt í samræmi við þá stefnu að fækka en um leið að stækka þau verkefni sem félagið er með á efnahagsreikningi sínum,“ segir í tilkynningunni.
Kaupfélag Suðurnesja á rúmlega helmingshlut í Samkaupum. Birta lífeyrissjóður rúmlega átján prósent, Kaupfélag Borgfirðinga rúm tíu prósent og Festa lífeyrissjóður slétt tíu prósent. Nú er Skel orðinn fimmti stærsti eigandinn í Samkaupum.