Handbolti

Elvar Örn verkja­laus og klár í mínútur í dag

Aron Guðmundsson skrifar
Staðan á Elvari Erni Jónssyni virðist skána með hverjum deginum sem líður. Eftir margra vikna meiðslatímabil lítur út fyrir að hann geti verið klár í slaginn með íslenska landsliðinu á komandi Evrópumóti.
Staðan á Elvari Erni Jónssyni virðist skána með hverjum deginum sem líður. Eftir margra vikna meiðslatímabil lítur út fyrir að hann geti verið klár í slaginn með íslenska landsliðinu á komandi Evrópumóti. Vísir/Einar

Það bendir allt til þess lands­liðs­maðurinn öflugi. Elvar Örn Jóns­son, geti beitt sér að fullu með ís­lenska lands­liðinu á komandi Evrópu­móti í Þýska­landi.

Elvar lenti í því að rífa kvið­vöðva í leik með fé­lags­liði sínu Melsun­gen í Þýska­landi fyrir um sex vikum síðan. Með­höndlun við meiðslunum hefur falið í sér að Elvar hefur þurft að hvíla mikið, leyfa vöðvanum að gróa í friði og koma sér hægt og ró­lega aftur inn á völlinn. Nú sér til sólar í þeim efnum.

„Mér líður bara mjög vel,“ segir Elvar Örn að­spurður um stöðuna á sér en ís­lenska lands­liðið mun á næstu dögum fyrir EM leika tvo æfingar­leiki gegn Austur­ríki. „Þetta er allt á loka­stigi hjá mér. Ég er búinn að taka eina æfingu á fullu og batinn er bara virki­lega góður. Þetta lítur vel út eins og er. Við erum bara fullir bjart­sýni með þetta fyrir mót.“

Meiðslin voru af þeim toga að fann fyrir verkjum af þeim valdandi í öllum hliðum dag­legs lífs.

„Þegar að ég labbaði um og já bara í öllu. Mér finnst hins vegar já­kvætt að þessa stundina finn ég ekki neitt fyrir þessu. Þannig ætlum við að reyna halda þessu á­fram og ná fullum bata fyrir mót.“

Þannig að þú ert bjart­sýnn á að geta tekið þátt í þessum komandi æfingar­leikjum fyrir EM til að láta reyna al­menni­lega á þetta?

„Já, það væri flott ef ég myndi ná því. Fá svona að­eins leik­til­finninguna og láta mér líða vel inn á vellinum áður en að Evrópu­mótið byrjar. Að ná ein­hverjum mínútum í þessum æfingar­leikjum væri mjög gott.“

Slétt vika er í fyrsta leik Strákanna okkar á EM í Þýska­landi gegn Serbíu. Því næst mætir liðið Svart­fellingum og svo Ung­verja­landi í loka­leik riðla­keppninnar.

Þetta verður fyrsta stór­mót ís­lenska lands­liðsins undir stjórn Snorra Steins Guð­jóns­sonar og Elvari Erni lýst vel á fram­haldið undir stjórn þessa fyrrum lands­liðs­fyrir­liða. Greina megi á­kveðna á­herslu­breytingu með hans komu.

„Æfingarnar hafa verið mjög góðar. Það kemur annar leik­stíll inn í þetta með inn­komu Snorra. Við erum að hlaupa meira og erum að­eins að breyta á­herslum í vörn. Erum komnir aftar þar og byrjaðir að vinna meira með mark­mönnunum, hjálpa þeim að verja nokkra bolta.

En annars finnst mér undir­búningurinn fyrir þessi stór­mót alltaf vera svipaður. Það eru allir vel gíraðir í þetta verk­efni, allir að leggja allt í æfingarnar og róa í sömu átt. Ég er því virki­lega spenntur fyrir þessu móti.“

Viðtalið allt við Elvar og innslag hans í Sportpakka Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×