Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Álit umboðsmanns birtist í gær og var niðurstaða hans sú að frestunin hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sagðist í samtali við fréttastofu í gær taka álitið alvarlega en sagðist ekki ætla að segja af sér vegna málsins.
Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf. segir í Morgunblaðinu að niðurstaða umboðsmanns sé afdráttarlaus og skýr um það að ráðherra hafi brotið gegn atvinnu-og eignaréttindum. Svandís hafi látið eigin pólitísk sjónarmið ráða för hvað sem öðrum hagsmunum hafi liðið.
Þá er haft eftir lögmanni fyrirtækisins að álit umboðsmanns sé í samræmi við meginforsendur málatilbúnaðar Hvals hf. Ráðherra hafi hvorki gætt að stjórnarskrárvörðum réttindum Hvals né lagasjónarmiðum sem bjuggu að baki reglugerðarheimild sem finna megi í 4. grein laga um hvalveiðar og því sé reglugerðin án lagastoðar.
Fréttastofa ræddi við Teit Björn Einarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og Gísla Rafn Ólafsson, þingmann Pírata, um álit umboðsmanns um hvalveiðibann matvælaráðherra, í gærkvöldi.
Teitur segir ráðherrann hafa beðið álitshnekki. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins líti álit umboðsmanns alvarlegum augum. Gísli segir Pírata telja eðlilegast að Svandís segi af sér ráðherraembætti.