Arnór hefur verið að spila virkilega vel fyrir Blackburn upp á síðkastið og leikurinn í dag var engin undantekning.
Það voru þó gestirnir frá Cambridge sem náðu óvænt forystunni á 6. mínútu. Leikmenn Blackburn voru þó ekki lengi að taka við sér og jafna en það gerðist á 23. mínútu með marki frá Sammie Szmodics. Staðan orðin 1-1.
Cambridge náðu aftur forystunni en þó aðeins í nokkrar mínútur. Arnór kom við sögu á 37. mínútu þegar hann lagði upp annað mark Szmodics en hann náði síðan að fullkomna þrennu sína í uppbótartíma fyrri hálfleiks og var staðan því 3-2 í hálfleik.
Það var síðan á 66. mínútu þar sem Arnór Sigurðsson skoraði eftir undirbúning frá Jake Garret. Staðan orðin 4-2 en það var síðan Harry Leonard sem skoraði síðasta markið og vann Blackburn því 5-2 og er komið áfram í næstu umferð.
Hvað önnur úrslit varðar má helst nefna það að úrvalsdeildarfélögin Brighton, Sheffield United og Bournemouth unnu öll sína leiki en öll úrslitin má sjá hér fyrir neðan.
Úrslitin:
Blackburn 5-2 Cambridge
Gillingham 0-4 Sheffield United
Hull City 1-1 Birmingham
Newport County 1-1 Eastleigh
Norwich City 1-1 Bristol Rovers
Plymouth 3-1 Sutton United
QPR 2-3 Bournemouth
Southampton 4-0 Walsall
Stoke 2-4 Brighton
Watford 2-1 Chesterfield