Enski boltinn

Ungur leik­maður Blackburn látinn spila í öðru­vísi treyju

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rory Finneran er rétt tæplega 16 ára gamall og má samkvæmt lögum ekki reykja rafsígarettur, eða auglýsa þær.
Rory Finneran er rétt tæplega 16 ára gamall og má samkvæmt lögum ekki reykja rafsígarettur, eða auglýsa þær. Gary Oakley/Getty Images

Rory Finneran skráði sig í sögubækurnar í gær sem næst yngsti leikmaður til þess að spila keppnisleik fyrir Blackburn Rovers í 5-2 sigri gegn Cambridge United í FA bikarnum. 

Aðdáendur furðuðu sig á því þegar hinn 15 ára gamli Íri kom inn á völlinn, hvers vegna hann bæri enga auglýsingu á treyjunni. Ástæðan er einföld, helsti styrktaraðili félagsins er rafsígarettufyrirtækið Totally Wicked, og sökum aldurs mátti Finneran ekki bera auglýsingu þess. 

Rory Finneran kom inn fyrir manninn sem skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik leiksins, Sam Szmodics, á 91. mínútu þegar sigurinn var löngu tryggður. Leikmaðurinn ungi þykir mikið efni, fæddur þann 29. febrúar 2008 og var því aðeins 15 ára, 10 mánaða og 8 daga gamall þegar hann þreytti frumraun sína í gær. 

Hann er sá næst yngsti til að spila fyrir Blackburn. James Thomas var sá yngsti þegar hann kom inn á í 1-0 sigri gegn Wolves árið 2000, þá 15 ára, 2 mánaða og 26 daga gamall. 

Eins og áður segir vann Blackburn leikinn 5-2 og er því komið áfram í 32-liða úrslit FA bikarsins. Arnór Sigurðsson var í byrjunarliði Blackburn, lagði upp og skoraði mark. 


Tengdar fréttir

Arnór skoraði og lagði upp í bikarnum

Tíu leikjum var að ljúka í FA-bikarnum á Englandi en þar ber helst að nefna viðureign Blackburn og Cambridge þar sem Arnór Sigurðsson var í byrjunarliði Blackburn og kom heldur betur við sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×