Fótbolti

Skoraði í bikar­úr­slita­leik en lá seinna með­vitundar­laus í grasinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Delort lék áður með Nice og var þá liðsfélagi Kasper Schmeichel.
Andy Delort lék áður með Nice og var þá liðsfélagi Kasper Schmeichel. Getty/Matthieu Mirville

Andy Delort átti eftirminnilegan dag um helgina þegar hann varð katarskur bikarmeistari með félagi sínu Umm-Salal.

Leikurinn byrjaði vel og Delort kom liði sínu yfir í leiknum strax á sjöttu mínútu.

Aðeins tíu mínútum síðar hneig hann hins vegar niður í grasið. Sjúkraliðar komu strax til Delort og huguðu að honum.

Franska blaðið Le Parisien segir að leikmaðurinn hafi fengið flogakast og að hann hafi misst meðvitund.

Það tókst hins vegar að fljótt að koma honum til meðvitundar en hann var auðvitað tekinn af velli.

Seinna í leiknum sást Delort þó koma til baka og horfa á leikinn af varamannabekknum. Það var ánægjuleg sjón fyrir alla sem óttuðust um hann þegar hann lá í grasinu.

Leikurinn reyndi á taugarnar og endaði í vítaspyrnukeppni eftir 4-4 jafntefli. Þar vann Umm-Salal og Delort endaði því þennan ótrúlega dag á því að fagna bikarmeistaratitlinum.

Delort er 32 ára gamall og hefur spilað fimmtán landsleiki fyrir Alsír. Hann hefur spilað stærstan hluta ferils síns í frönsku deildinni en er nú kominn til Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×