Í nýjum pistli á eldfjallabloggi sínu vekur Haraldur athygli á korti og mynd sem Einar Hjörleifsson fiskifræðingur hafi gert af dreifingu jarðskjálfta á vestanverðum Reykjanesskaga. Haraldur vísar jafnframt í fyrri pistil sinn frá því á Gamlársdag um svokallaða S-skugga.
Jarðskjálftabylgjur séu einkum tvennskonar, útskýrir hann. P-bylgjur, sem berist bæði í gegnum berg og vökva eins og hraunkviku, og S-bylgjur, sem berist aðeins í gegnum berg en ekki vökva eins og hraunkviku. Þær komi því ekki fram ef kvika sé fyrir hendi. Þá sé talað um S-bylgju skugga.
Slíkir skuggar sjáist núna undir Krísuvík og Sundahnúksgígaröðinni en ekki á svæðinu umhverfis Fagradalsfjall. Það sé lógíkst ef gert sé ráð fyrir því að leifar af láréttu kvikuinnskoti séu enn fyrir hendi undir Sundahnúksgígaröðinni og Krísuvík.
„Hins vegar virðist kvikuinnskotið vera horfið undir svæðinu umhverfis Fagradalsfjall, og dýpri skjálftar ná því yfirborði þar.
Ef til vill er Fagradalsfjall alveg búið að tappa af kviku og lárétta innskotið horfið. Kvika undir hinum tveimur svæðunum virðist enn valda S-skugga og koma í veg fyrir að djúpar skjálftabylgjur komist upp á yfirborð,“ segir Haraldur.
Í lok pistils síns beinir eldfjallafræðingurinn sjónum að Krísuvíkursvæðinu:
„Austast á kortinu er svæðið umhverfis Krísuvík en það sýnir dreif af grunnum skjálftum og nokkrum dýpri, en engan greinilegan strúktúr eða sprungustefnur. Maður gæti haldið að það sé merki um lárétt kvikuinnskot. Ef svo er, þá er hér stórt lárett innskot af kviku, sem getur verið 50 til 100 ferkílómetrar. Ef til vill eru líkurnar á gosi mestar hér,“ segir Haraldur.
Hann hefur ítrekað bent á þá hættu sem höfuðborgarsvæðinu gæti stafað af Krísuvíkureldstöðinni, meðal annars í þessu viðtali í nóvember: