Íslenski boltinn

Valur sækir varnarmanninn Jakob Franz

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jakob Franz er genginn til liðs við Val. Hann lék á síðasta tímabili sem lánsmaður hjá KR.
Jakob Franz er genginn til liðs við Val. Hann lék á síðasta tímabili sem lánsmaður hjá KR. skjáskot / valur

Jakob Franz Pálsson hefur gengið frá fjögurra ára samning við Val í Bestu deild karla. Hann kemur til félagsins frá Venezia á Ítalíu en eyddi síðasta tímabili á láni hjá KR. 

Valur tilkynnti félagsskiptin á samfélagsmiðlum sínum rétt í þessu. 

„Jakob Franz er þannig leikmaður að þegar við sáum að það var möguleiki að fá hann vorum við ekki í neinum vafa. Hann er í grunninn bakvörður en getur leyst fleiri stöður t.d. í hjarta varnarinnar og sem djúpur á miðjunni, ekkert ósvipað því hlutverki sem Hlynur Freyr sinnti hjá okkur á síðasta tímabili. Þrátt fyrir ungan aldur er Jakob með heilt tímabil í efstu deild með KR þar sem hann spilaði frábærlega. Jakob Franz gæti orðið lykilmaður hjá okkur næstu árin“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari liðsins, í tilkynningu Vals.

Jakob er uppalinn á Akureyri og steig sín fyrstu skref með Þór í Lengudeild karla árið 2020. Hann fór í kjölfarið til Ítalíu en tókst ekki að festa sig í sessi þar. Á síðasta tímabili spilaði hann 25 leiki fyrir KR og skoraði 1 mark. Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var hluti af liðinu sem komst á EM u19 landsliða síðasta sumar. 

„Umhverfi hjá Val er þannig að ég trúi því að ég geti haldið áfram að bæta mig sem leikmann og þróast í rétta átt. Hérna eru gæða leikmenn í öllum stöðum bæði inni á vellinum og í þjálfarateyminu“ sagði Jakob við undirritun samningsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×