Enski boltinn

Ange hrósaði leik­mönnum sínum í há­stert

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sáttur með sína menn.
Sáttur með sína menn. Catherine Ivill/Getty Images

„Ég er hæstánægður, við spiluðum virkilega vel. Auðvitað byrjuðum við ekki vel, fengum á okkur mark, og vitum í hvaða stöðu Manchester United er hvað varðar að þurfa að ná í úrslit,“ sagði Ange Postecoglou, þjálfari Tottenham Hotspur, eftir 2-2 jafntefli liðsins á Old Trafford í dag.

Manchester United og Tottenham Hotspur mættust í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag. Heimamenn í Man United komust yfir snemma leiks og voru 2-1 yfir í hálfleik. Gestirnir frá Lundúnum jöfnuðu metin strax í upphafi síðari hálfleiks og voru óheppnir að vinna ekki leikinn.

„Strákarnir svöruðu frábærlega eftir að við lentum undir. Við spiluðum virkilega góðan fótbolta og jafnvel fyrir það vorum við að skapa fín tækifæri. Við stjórnuðum leiknum í síðari hálfleik, ég gæti ekki verið hamingjusamari.“

„Við áttum virkilega erfiða viku utan vallar, menn veikir og fleira. Þessi hópur leikmanna hefur staðið sig frábærlega.“

Rodrigo Bentancur skoraði jöfnunarmark Spurs í síðari hálfleik en hann, líkt og þónokkrir leikmenn liðsins, hefði í raun átt að sleppa leiknum.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá ætti hann enn að vera frá keppni. En hann kom að mér og sagði að hann vildi hjálpa til. Það sýnir karakterinn sem hann býr yfir, hann var frábær í dag.“

„Strákarnir eru að gefa mér allt sem þeir eiga, hvort það séu strákarnir sem eru að spila út úr stöðu sem og þeir sem hafa ekki spilað í dágóða stund vegna meiðsla. Það eru margar ástæður fyrir að við ættum ekki að standa okkur á þessu getustigi, meira að segja ég hefði samþykkt það,“ sagði Ange að endingu.

Tottenham er í 5. sæti með 40 stig að loknum 21 leik á meðan Man United er í 7. sæti með 32 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×