Innlent

Dæmdur fyrir að taka sam­fanga háls­taki

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands.
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt mann, sem afplánaði dóm á Sogni, í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að ráðast á samfanga sinn með því að taka hann hálstaki og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið.

Um hegningarauka er að ræða, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún látin niður falla, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.

Í upphaflegri útgáfu ákærunnar kom einnig fram að maðurinn hafi „skallað [samfangann] í andlitið“, en ákæruvaldið óskaði síðar eftir því að yrði tekið úr ákærunni.

Atvikið átti sér stað í maí 2022, utandyra við svokallaða Hjáleigu í fangelsinu að Sogni. Segir að fórnarlamb árásarinnar hafi hlotið beinbrot í andlitabeinum og með sprungu inn í augntóft. Ákærði játaði skýlaust þátt sinn í málinu.

Farið var fram á að ákærði myndi greiða tvær milljónir króna í skaðabætur, en dómari mat hæfilega upphæð 600 þúsund krónur. Ákærði var sömuleiðis dæmdur til að greiða brotaþola 180 þúsund krónur í málskostnað og svo 145 krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×