Innlent

Vignir Jónas­son lést af slys­förum í Sví­þjóð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vignir og Ivan frá Hammarby unnu heimsmeistaratitil í slagtaumatöli á HM íslenska hestsins í Herning sumarið 2015.
Vignir og Ivan frá Hammarby unnu heimsmeistaratitil í slagtaumatöli á HM íslenska hestsins í Herning sumarið 2015. Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir

Vignir Jónasson, hestamaður sem ræktað hefur hesta við góðan orðstír í Svíþjóð,  er látinn eftir alvarlegt slys í Laholm í gærkvöldi. Hann var 52 ára gamall.

Hestavefurinn Eiðfaxi greinir frá tíðindunum. Þar segir að Vignir hafi verið búsettur í Svíþjóð um langa tíð og á sínum langa ferli náð frábærum árangri sem hestaíþróttamaður og ræktandi.

Hann vann meðal annars til verðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestins og keppti þar fyrir hönd Svíþjóðar. Vignis er minnst víða á samfélagsmiðlum og vitnað til hræðilegs slyss í gærkvöldi.

Fram kemur í frétt Gautaborgarpóstsins að karlmaður hafi látist í slysi á áttunda tímanum í gærkvöldi í Laholm. Svo virðist sem einstaklingur hafi orðið undir vinnutæki. Lögregla hafi náð að lyfta vinnutækinu af manninum og hafið endurlífgunartilraunir.

Lögreglan hafi í morgunsárið tilkynnt að maðurinn hafi látist vegna áverka. Aðstandendur hafi verið látnir vita. Málið er rannsakað sem vinnuslys og hefur hald verið lagt á vinnutækið sem talið er að hafi verið notað til að lyfta heyböggum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×