Innlent

Heitt vatn og raf­magn komið á í Grinda­vík að mestu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Grindavík.
Frá Grindavík. Vísir/Arnar

Aðgerðir gengu vel í dag hjá HS Veitum í Grindavík og er nú komið heitt vatn og rafmagn á stóran hluta bæjarins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Veitum.

Eins og fram hefur komið eyðilagðist heitavatnslögn í eldgosinu í vikunni. Fram kemur í tilkynningunni að vegna hættulegra aðstæðna hafi verkið verið unnið með aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra.

Auk þeirra voru með í för aðrir sérþjálfaðir viðbragðsaðilar og miðuðu aðgerðirnar að því að koma innviðum sem eru heilir aftur í virkni. Segir að aðgerðir hafi tekist vel.

Ljóst sé hinsvegar að vegna skemmda á veitukerfum í bænum hafi ekki verið hægt að koma rafmagni og heitu vatni á öll hús í Grindavík. Í einhverjum tilfellum getur verið að hitakerfi hússins virki ekki þó hús sé að fá til sín heitt vatn.

Af þeim ástæðum hafa almannavarnir fengið til liðs við sig viðbragðssveit pípulagningarmanna til að kanna ástand hitakerfa fasteigna á skilgreindum svæðum í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×