Málið má rekja aftur til 16. ágúst 2022 þegar tilkynnt var um hvarf þýsk-írakskrar konu, sem starfaði þá sem áhrifavaldur. Stuttu síðar fannst bíll hennar í Ingolstadt og í bílnum var lík konu með afmyndað andlit sem stungið hafði verið ítrekað.
Lögregla taldi víst að hin þýsk-írakska væri þar fundin og töldu foreldrar konunnar um lík dóttur sinnar að ræða. Annað kom þó í ljós þegar niðurstöður DNA-rannsóknar bárust. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að þarna væri í raun lík 23 ára gamallar alsírskrar konu sem var sláandi lík hinni.
Vildi flýja kúgandi eiginmann
Eftir umsvifamiklar aðgerðir tókst lögreglu að rekja ferðir þeirrar þýsk-íröksku til 23 ára karlmanns frá Kósovó. Þar fannst hún á lífi og voru bæði hún og maðurinn handtekin, grunuð um að hafa orðið alsírsku konunni að bana.
Samkvæmt umfjöllun Deutsche Welle um málið vildi hin þýsk-írakska ólm sleppa undan kúgun eiginmanns síns, fjölskyldu hans og samfélags þeirra en bæði eru Jasídar. Hún er sögð hafa gert tilraun til þess sem mistókst og því farið að leita annarra leiða.
Bauð ókeypis fegrunarmeðferð
Fyrst hafi konan reynt að ráða leigumorðingja til að bana mági sínum, sem var harðastur á því að ungu hjónin myndu ekki skilja. Þegar það hafi ekki gengið eftir hafi hún farið að leita að tvífara sínum á samfélagsmiðlum í þeirri von að geta sviðsett dauða sinn.
Hún notaði samfélagsmiðla sína til að bjóða heppnum konum ókeypis fegrunarmeðferðir, en konan starfaði sem áhrifavaldur og snyrtifræðingur. Sú alsírska féll fyrir blekkingarleiknum og bauðst sú þýsk-írakska til að sækja hana fyrir meðferðina. Á leiðinni til Ingolstadt er hún sögð hafa keyrt inn í þéttvaxið skóglendi þar sem maðurinn frá Kósovó beið þeirra og myrti alsírsku konuna í köldu blóði.
Samkvæmt málflutningi saksóknara keyrði unga parið svo með lík alsírsku konunnar í bílnum til Ingolstadt, þar sem þau komu bílnum fyrir á góðum stað þar sem hann myndi örugglega finnast.
Áætlað er að aðalmeðferð í málinu muni vara fram í maí og muni taka alls 28 daga.