Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Þar segir að verkefnið hafi verið í þróun í rúman áratug og hafi verið samþykkt í nýtingarflokk rammaáætlunar í júní 2022. Sótt hafi verið um virkjunarleyfi í október sama ár með fyrirvara um afgreiðslu skipulagsmála.
„Vinna við aðalskipulagsbreytingu og gerð deiliskipulags fyrir svæðið hefur staðið yfir frá desember 2022 með Rangárþingi ytra en Búrfellslundur er alfarið innan þess sveitarfélags. Einnig er unnið að samningum við íslenska ríkið sem landeiganda, en landsvæðið er innan þjóðlendu,“ segir í tilkynningunni.

Óhefðbundið ferli á útboðinu
Teljast verður óvenjulegt að ráðist sé í útboð án þess að leyfis- og skipulagsmál séu komin á hreint og er nokkur áhætta fólgin í því.
Hins vegar segir að stjórn Landsvirkjunar meit áhættuna viðunandi „miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi“ og samþykkti að fara þessa leið á fundi sínum 12. janúar síðastliðinn.
Ástæðan fyrir því að þessi leið er valin er samkvæmt tilkynningunni „til að auka líkurnar á því að verkefnið geti farið að skila orku inn á raforkukerfið fyrir lok árs 2026“.
Útboðsferli séu tímafrek og afhendingartími á búnaði langur.
Framkvæmdaglugginn stuttur vegna veðurs
Í tilkynningunni segir að áætlaður framkvæmdatími sé tvö ár en vegna veðurskilyrða sé framkvæmdagluggi verkefnisins mjög stuttur. Hann takmarkist að mestu við sumartímann, einkum uppsetning vindmyllanna. Frestun á verkþáttum verkefnisins geti því seinkað gangsetningu um heilt ár.
Þá segir að útboðsferlið taki allt að átta mánuði og samhliða því sé unnið að endanlegu skipulagi verkefnisins. Vonir standi til að öll tilskilin leyfi og samningar verði í höfn þegar því lýkur. Útboðsferli klárist aðeins þegar öll leyfi hafi verið veitt og samningum lokið.
„Allt að 30 vindmyllur verða í Búrfellslundi, hver og ein með 4-5 MW uppsett afl og samanlögð orkugeta verður um 440 GWst á ári. Rammaáætlun gerir ráð fyrir allt að 120 MW uppsettu afli,“ segir í tilkynningunni.
Kalla eftir auknu raforkuframboði
Undir lok tilkynningarinnar segir að orkuvinnslukerfi Landsvirkjunar sé nú fullnýtt og orkan uppseld. Þá sé fyrirsjáanlegt þetta ástand vari þar til hægt sé að auka orkuvinnslu.
Raforkuorkuvinnslan í dag geti ekki mætt eftirspurn eftir rafmagni fyrir eðlilegan vöxt atvinnulífsins og margboðuð orkuskipti.
Það sé því von Landsvirkjunar að „spaðarnir á vindmyllum fyrsta vindorkuversins á Íslandi verði farnir að snúast í lok árs 2026.“