Unnið hefur verið að því hörðum höndum undanfarið að koma hita og rafmagni á húsin í Grindavík og stóð til að halda þeirri vinnu áfram í dag.
„Það auðvitað hefur snjóað töluvert hérna á Suðurnesjum og töluverður snjór inni í Grindavík. Þannig við fórum í það að hreinsa götur bæjarins og sú vinna stendur yfir en það verður ekkert unnið í dag inni í bænum. Snjór yfir jörðu og af öryggisástæðum þá hefur sú ákvörðun verið tekin að vinna við að koma hita og rafmagni á hús hún frestast í dag,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Hann segir nokkra viðbragðsaðila vera í bænum í dag. Það væru starfsmenn Gindavíkurbæjar, björgunarsveitarmenn, lögregla og slökkvilið.
Staðan verður metin aftur á morgun. Þá er önnur verðmætabjörgun að sama skapi ekki í gangi í dag. Úlfar segir óvíst hvenær hún geti farið fram en það haldist í hendur við breytingar á hættumati.
„Veðurstofan ég á von á því að þeir fari yfir sitt hættumat sitt á morgun og hugsanlega verða einhverjar breytingar á því. Við verðum bara að sjá til og bíða.“
Hættumatskort Veðurstofunnar var gefið út gær og gildir þar til á morgun kl. 15:00 að öllu óbreyttu.
Úlfar segir það skýrast betur á morgun eftir að nýja hættumatskortið verður gefið út hvenær hægt verði að opna Bláa lónið á ný.
„Við erum alltaf vongóð og alltaf tilbúin en auðvitað treystum við fullkomlega yfirvöldum og fylgjum í einu öllu því sem þau ráðleggja okkur,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, sem vonast til að hægt verði að opna lónið á ný sem fyrst.
Hún segir lokunina hafa haft töluverð áhrif.
„Við erum búin að vera núna lokuð í rúma tvo mánuði og það auðvitað er búið að taka á og annað en ég vil nú meina það að starfsfólkið okkar er alveg ótrúlega öflugt og jákvætt við þessar aðstæður og allir sýna stöðunni skilning og þolinmæði.“