Eftir þrjá deildarleiki í röð án sigurs vann Arsenal mikilvægan 5-0 sigur gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leik dagsins og Gabriel kom Skyttunum yfir strax á elleftu mínútu eftir góðan undirbúning Declan Rice. Gabriel var svo aftur á ferðinni á 37. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Bukayo Saka í átt að marki. Boltinn hafði viðkomu í Dean Henderson, markverði Crystal Palace, og þaðan fór hann í netið. Markið því skráð sem sjálfsmark og heimamenn fóru með 2-0 forystu inn í hálfleikshléið.
Það var svo Leandro Trossard sem rak smiðshöggið á góða skyndisókn Arsenal eftir tæplega klukkutíma leik og gerði þar með út um leikinn eftir stungusendingu frá Gabriel Jesus.
Gabriel Martinelli bætti svo tveimur mörkum við fyrir Arsenal á fjórðu og fimmtu mínútu uppbótartíma og þar við sat. Niðurstaðan varð 5-0 sigur Arsenal sem nú situr í þriðja sæti deildarinnar með 43 stig eftir 21 leik, tveimur stigum minna en topplið Liverpool sem á þó leik til góða.
Crystal Palace situr hins vegar í 14. sæti með 21 stig.