Enski boltinn

Carragher: Betri að klára færin en Torres, Suarez og Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diogo Jota fagnar öðru marka sinna í gær með Virgil van Dijk.
Diogo Jota fagnar öðru marka sinna í gær með Virgil van Dijk. Getty/Mike Hewitt

Jamie Carragher var heldur betur ánægður með Portúgalann Diogo Jota eftir 4-0 sigur Liverpool á Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Jota skoraði tvö mörk í leiknum en hann hefur verið sjóðandi heitur eftir að hann kom til baka úr meiðslum. Þetta vegur þungt fyrir Liverpool þessa dagana enda Mo Salah upptekinn í Afríkukeppninni.

„Hann er leikmaður sem var inn og út úr byrjunarliðinu hjá Wolves og þegar Liverpool keypti hann þá var hellingur af fólki að klóra sér í höfðinu yfir því. Þau skildu þetta ekki,“ sagði Jamie Carragher, sérfræðingur Sky Sports, eftir leikinn.

„Liverpool skoðaði hins vegar tölurnar á bak við leikmanninn og sá kannski hvar hann var að skjóta, hve oft hann var að skjóta og jafnvel tölur eins og Xg. Alla þessa hluti sem Liverpool skoðar vel,“ sagði Carragher um Jota.

„Þegar þú horfir til baka á þessi kaup þá er þetta hálfgerður þjófnaður. Öll mörkin sem hann hefur skorað fyrir liðið,“ sagði Carragher um Portúgalann.

„Hann er kannski ekki byrjunarliðsmaður þegar allir eru heilir og ef ég er hreinskilinn þá kemst hann líklega ekki í fullskipað lið,“ sagði Carragher en hélt áfram:

„Þegar við skoðum það að klára færin þá er hann eins góður ef ekki betri en menn eins og Torres, Suarez og Salah. Kannski er sá eini sem telst vera betri en hann Robbie Fowler á fyrstu árum ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Carragher.

„Hann er algjörlega út úr þessum heimi,“ sagði Carragher eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×