Innlent

Björn lætur af störfum hjá Karolinska

Atli Ísleifsson skrifar
Björn Zoëga hefur gegnt stöðu forstjóra Karolinska frá árinu 2019.
Björn Zoëga hefur gegnt stöðu forstjóra Karolinska frá árinu 2019. Karolinska

Björn Zoëga hefur ákveðið að láta af stöðu forstjóra Karolinska-sjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð.

Frá þessu er greint á vef Karolinska. Hann hefur gegnt stöðunni frá árinu 2019. Þar segir Björn muni gegna stöðunni til 4. mars en þá muni Patrik Rossi aðstoðarforstjóri taka við skyldum forstjóra.

Björn er bæklunarskurðlæknir og var forstjóri Landspítalans á árunum 2010 til 2013 og var ráðinn forstjóri Karolinska árið 2019. Árið 2022 var hann ráðinn tímabundið í starf ráðgjafa Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, en sú staða snerist fyrst og fremst að störfum Landspítalans.

Haft er eftir Mikael Ohrling, forstjóra heilbrigðisyfirvalda á Stokkhólmssvæðinu, að staða Karolinska háskólasjúkrahússins sé sterkari í dag en hún hafi verið í lengri tíma, þökk sé stjórn Björns og samstarfsmanna hans.

Þá er haft eftir Birni að þrátt fyrir heimsfaraldur, sem hafi verið erfiður bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk, hafi tekist að hrinda í framkvæmd áætlun sem hafi komið sjúkrahúsinu upp úr mjög erfiðri stöðu. Tekist hafi að vinna úr erfiðri fjárhagsstöðu, auk þess að tekist hafi að fjölga legurýmum og aðgerðum. „Við höfum farið frá því að vera dregin í efa í að teljast sem eitt fremsta sjúkrahús heims. Það er starfsfólkið sem hefur gert það mögulegt.“

Björn útilokaði ekki í samtali við Dagens Nyheter fyrr í mánuðinum að bjóða sig fram til forseta Íslands, en arftaki Guðna Th. Jóhannessonar verður kjörinn í forsetakosningum 1. júní næstkomandi.


Tengdar fréttir

Úti­lokar ekki for­seta­fram­boð

Björn Zoëga, forstjóri sjúkrahússins Karolinska í Stokkhólmi, segist ekki útiloka að bjóða sig fram til forseta Íslands í þeim forsetakosningum sem fram fara í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×