Innlent

Dregur úr land­risi og ró­legt á Reykja­nesi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Of snemmt er að segja til um hvort núverandi jarðhræringar segi nokkuð um framhaldið.
Of snemmt er að segja til um hvort núverandi jarðhræringar segi nokkuð um framhaldið. Vísir/Arnar

Verulega virðist hafa dregið úr landrisi í Svartsengi og nágrenni síðustu tvo sólarhringa samkvæmt gögnum úr síritandi GPS mælum. Náttúruvásérfræðingur segir sérfræðinga horfa til samspils fleiri mælinga og staðan því óbreytt.

Á gögnum úr síritandi GPS mælum Jarðvísindastofnunar HÍ og Veðurstofunnar sést að mjög lítil lóðrétt færsla er að koma fram. Samkvæmt Eldfjalla-og náttúruvárhópi Suðurlands er þetta sjáanlegt á nær öllum mælum á svæðinu en sérstaklega skýrt á mælum í Svartsengi og Eldvörpum.

Ríkey Júlíusdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að líklega sé um að ræða eðlilegt flökt í mælitækjum. Landris sé ekki alltaf með jöfnum hraða.

„Við getum ekki gefið okkur það að það þýði að það fari að draga til tíðinda. Það verður að vera samspil mun fleiri mælinga heldur en bara GPS mælinga.“

Ríkey segir skjálftavirkni hafa verið litla undanfarna daga. Engin merki séu um gosóróa. Reykjanesið sé rólegt og einungis hafi fáeinir skjálftar mælst frá miðnætti.

Að sögn Ríkeyjar munu vísindamenn funda um stöðuna á morgun. Þá mun Veðurstofan segja til um það hvort núverandi hættumatskort á Reykjanesi, sem rennur út á morgun, verði í gildi áfram eða hvort því verði breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×