Handbolti

Króatasigur í lokaleiknum gegn þreyttum Þjóð­verjum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Króatar fögnuðu sínum fyrsta sigri í milliriðli mótsins í kvöld gegn Þýskalandi.
Króatar fögnuðu sínum fyrsta sigri í milliriðli mótsins í kvöld gegn Þýskalandi. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Króatía vann Þýskaland , 30-24, í síðasta leik milliriðilsins á Evrópumótinu í handbolta. Þýskaland hafði þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum eftir að Ungverjalandi mistókst að vinna Frakkland í dag.

Þökk sé fyrri úrslitum dagsins kom sú staða ekki upp að Króatía græddi á því að tapa leiknum, líkt og hafði verið í umræðunni undanfarna daga.

Bæði lið stilltu upp sterkum byrjunarliðum í kvöld og spiluðu ekki á neinum varaskeifum. Leikurinn var æsispennandi lengst af þó Króatar hafi leitt leikinn og oftar tekið forystuna. Markverðir beggja liða buðu upp á heimsklassavörslur en Dominik Kuzmanovic, markvörður Króata, var í algjörum sérklassa og varði 22 skot.

Leikurinn var jafn þegar um fimmtán mínútur voru eftir en þá virtust Þjóðverjar orkulausir og tóku Króatar völdin, skoruðu sex mörk í röð og tryggðu sér sigurinn í raun. Þjóðverjar skoruðu nokkur mörk til viðbótar en tókst aldrei að minnka muninn að neinu marki. Lokaniðurstaða 24-30 sigur Króatíu.

Undanúrslitaleikirnir fara fram næsta föstudag, 24 janúar. Frakkland og Svíþjóð mætast í fyrri leiknum kl. 16:45 en Danmörk og Þýskaland mætast svo í seinni leiknum 19:30. Úrslitaleikur mótsins og leikur um 3. sæti fer svo fram næsta sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×