Erlent

Olíu­flutninga­skip í ljósum logum eftir loft­á­rás Húta

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Húta á samstöðufundi með Palestínumönnum á Gasa í Sanaa. 
Stuðningsmenn Húta á samstöðufundi með Palestínumönnum á Gasa í Sanaa.  AP

Breskt olíuflutningaskip stendur í ljósum logum í Adenflóa eftir að Hútar skutu eldflaug að því í gærkvöldi. Árásin er samkvæmt Hútum viðbragð við auknum árásum Breta og Bandaríkjamanna á Jemen síðastliðnar vikur. 

Talsmaður Hútí-fylkingarinnar hefur lýst yfir ábyrgð á loftárásinni, sem var gerð á olíuflutningaskipið Marlin Luanda. Skipið hefur siglt undir fána Marshall-eyja og er í eigu alþjóðlega fyrirtækisins Trafigura. 

 BBC hefur eftir skipstjóra skipsins að eldflaug Húta hafi hæft einn af flutningstönkum skipsins með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í honum. Slökkvistarf sé nú í gangi. 

Ekki er vitað til þess að meiðsl hafi orðið á fólki í umræddri árás, samkvæmt yfirlýsingu frá Miðstjórn Bandaríkjanna. 

Árásin er sögð hafa verið gerð sextíu sjómílum suðaustur af hafnarborginni Aden í Jemen.AP

Árásin er ein af fjölmörgum sem Hútar hafa gert á flutningaskip sem sigla um Rauðahafið eftir að stríð hófst á Gasa. Hútar gáfu út í desember að skotið yrði á öll flutningaskip sem sigldu til Ísrael án þess að koma við á Gasa með neyðarbirgðir. 

Breska ríkisstjórnin hefur sagt að árásir Húta á séu algjörlega óviðunandi og að Bretar og Bandaríkjamenn áskilji sér rétt til að bregðast við á viðeigandi hátt.

Hersveitir Breta og Bandaríkjamanna hafa svarað árásunum með enn fleiri og umfangsmeiri árásum. Talsmaður Húta sagði í yfirlýsingu að árásin væri viðbragð við loftárásum sem Bandaríkjamenn og Bretar hafa gert á Jemen síðustu vikur. 


Tengdar fréttir

Réðust aftur gegn Hútum í Jemen í nótt

Bandaríkjamenn og Bretar skutu aftur á skotmörk í Jemen sem þeir telja tengjast Hútum. Í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Pentagon í gær kom fram að skotið hefði verið á átta skotmörk.

Gerðu árásir á Húta í fjórða sinn á viku

Bandaríkjamenn gerðu í nótt árásir á Húta í Jemen. Það var í fjórða sinn á viku sem eldflaugum er skotið að uppreisnarmönnunum, sem hafa verið að gera árásir á fraktskip á Rauðahafi og Adeanflóa. Árásirnar voru gerðar í kjölfar þess að yfirvöld í Bandaríkjunum skilgreindu Húta sem hryðjuverkasamtök á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×